Enski boltinn

Dalglish: Þurfum bara smá heppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er ánægður með hversu mörg tækifæri hans mönnum hefur tekist að skapa í undanförnum leikjum.

Leikmenn Liverpool hafa þó ekki verið nógu duglegir að nýta færin sín en liðið hefur gert þrjú jafntefli á heimavelli, nú síðast gegn Norwich um helgina.

„Mér finnst að við höfum verið frábærir í að skapa okkur færi,“ sagði Dalglish í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Það er mikið ánægjuefni.“

„Við þurfum auðvitað að nýta þau betur en ef rýnt er í tölurnar má alveg eins gera ráð fyrir því að við getum skorað 5-6 mörk í einum leik.“

„Við þurfum bara smá heppni og um leið og hún færist yfir á okkar band þá hef ég engar áhyggjur af okkur.“

„Það er ekki hægt að segja að við höfum verið að spila illa. Við áttum meira skilið úr þessum leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×