Enski boltinn

Vermaelen búinn að framlengja við Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Vermaelen.
Thomas Vermaelen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Belgíski landsliðsfyrirliðinn Thomas Vermaelen hefur skrifað undir nýjan samning við Arsenal en þessi 25 ára miðvörður kom til liðsins frá Ajax fyrir tímabilið 2009-10.

Þetta eru vissulega gleðifréttir fyrir stuðningsmenn Arsenal sem hafa aðallega fengið fréttir undanfarið af því að leikmenn séu á förum eða vilja ekki skrifa undir nýja samninga við félagið.

„Við erum himinlifandi með að Thomas sé búinn að skrifa undir nýjan samning. Það er alltaf okkar plan að tryggja okkur háklassaleikmenn og með þessari undirritun Thomas höfum við einmitt gert það," sagði Arsène Wenger, stjóri Arsenal.

Vermaelen lék flesta leiki allra Arsenal-manna á sínu fyrsta tímabili en hefur mikið glímt við meiðsli á síðustu tveimur tímabilum. Vermaelen hefur verið meiddur að undanförnu en er allur að koma til.

„Ég er mjög ánægður með að vera búinn að ganga frá þessum nýja samningi. Ég ætlaði mér alltaf að spila hérna áfram. Arsenal er frábær klúbbur, með frábæra stuðningsmenn og stendur vel fjárhagslega. Við erum líka með marga unga og hæfileikaríka leikmenn og framtíðin er því björt," sagði Thomas Vermaelen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×