Enski boltinn

Mancini: Tevez verður áfram hjá Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez fagnar seinna marki sínu í kvöld.
Carlos Tevez fagnar seinna marki sínu í kvöld. Mynd/AP
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, gaf það út eftir 3-0 sigur liðsins á Stoke í ensku úrvalsdeildinni í kvöld að Carlos Tevez verði áfram hjá félaginu. Tevez fór á kostum í kvöld og skoraði tvö stórglæsileg mörk í leiknum.

Mancini sagði að Tevez hafi sagt sér að hann vilji vera áfram hjá Manchester City. „Eins og ég hef alltaf sagt þá er hann með fimm ára samning. Ég tala við hann mjög oft og það eru engin vandamál á milli okkar," sagði Roberto Mancini.

„Hann er frábær framherji og frábær leikmaður fyrir okkar lið. Ég held að hann verði áfram hjá okkur á næsta tímabili. Hann sagði mér að hann vilji vera áfram," sagði  Mancini en með því að skora tvö mörk í kvöld er Carlos Tevez  búinn að jafna Dimitar Berbatov í baráttunni um gullskóinn í ensku úrvalsdeildinni.

City náði 3. sætinu af Arsenal með sigrinum í kvöld og getur tryggt sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar með sigri á Bolton í lokaumferðinni á sunnudaginn kemur.

„Það er mikilvægt að við hugsum um næsta leik en þetta er núna í okkar höndum," sagði Mancini og bætti við:

„Við höfum bætt okkur mikið á þessu tímabili og við höfum spilað mjög vel síðustu 40 daga. Við eigum að geta bætt okkur enn meira á næsta tímabili en fyrst þufum við að fara og klára erfiðan leik í Bolton," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×