Enski boltinn

Balotelli með jöfn mörg mörk og spjöld í búningi City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli fær hér rautt á móti Liverpool.
Mario Balotelli fær hér rautt á móti Liverpool. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mario Balotelli getur spilað með Manchester City í dag þegar liðið mætir Norwich City í ensku úrvalsdeildinni en hann tók út leikbann í deildarbikarnum í vikunni eftir að hafa fengið rautt spjald á móti Liverpool um síðustu helgi.

Guardian segir frá því að Roberto Mancini, stjóri Manchester City sé búinn að vara Balotelli við að hann geti varla treyst honum lengur í stóru leikina þar sem ítalski framherjinn er svo iðinn við að koma sér í vandræði hjá dómurunum.

Rauða spjaldið hans Balotelli á móti Liverpool var hans þriðja á sextán mánuðum sem þykir mikið fyrir varnarmann hvað þá fyrir framherja. Mancini er viss um að City hefði unnið Liverpool hefði Balotelli haldið sér inn á vellinum.

Mario Balotelli er frábær framherji og hefur skorað 19 mörk í 41 leik með Manchester City þar af 9 mörk í aðeins þrettán leikjum á þessu tímabili. Vandamálið er bara að strákurinn hefur á sama tíma fengið 16 gul spjöld og 3 rauð spjöld og er því með jöfn mörg mörk og spjöld í búningi City.

„Ég vona að hann fari að hætta þessu. Varnarmaður getur gert mistök og fengið gult spjald en Mario er ekki varnarmaður. Hann er framherji og það er vanalega erfitt fyrir framherja að fá gult spajld. Ég sjálfur fékk aðeins eitt rautt spjald á tuttugu árum en var samt leikmaður sem setti pressu á dómarana. Mér líður eins og Mario sé búinn að fá þrjú rauð á tveimur vikum," sagði Roberto Mancini.

„Mario verður að átta sig á því að hann er aðeins mikilvægur leikmaður fyrir okkur ef hann heldur sér inn á vellinum," sagði Mancini.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×