Innlent

Ólöglega staðið að ráðningu læknanema

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Heilbrigðisstofnun Suðurlands stóð ólöglega að ráðningu læknanema árið 2009.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands stóð ólöglega að ráðningu læknanema árið 2009.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands var óheimilt að ráða læknanema í sumarstarf fyrir milligöngu Félags læknanema. Læknanemi, sem ekki var í félaginu, kvartaði til Umboðsmanns eftir að ráðning hans var dregin til baka árið 2009 á þeirri forsendu að nemar yrðu einungis ráðnir fyrir milligöngu félagsins.

Umboðsmaður Alþingis segir að aðkoma Félags læknanema að ráðningunum hefði falist í því að þrengja hóp umsækjenda og það hefði haft afgerandi áhrif til útilokunar gagnvart læknanemum sem ekki höfðu hug á að nýta sér kerfið. Umboðsmaður taldi að í því að fela Félagi læknanema að þrengja hóp umsækjenda um opinber störf með þeim hætti sem gert var hefði falist framsal stjórnsýsluvalds til aðila utan stjórnsýslukerfisins án þess að fyrir því væri lagaheimild.

Í áliti sínu mæltist Umboðsmaður til þess að Heilbrigðisstofnun Suðurlands tæki til athugunar með hvaða hætti hægt væri að rétta hlut læknanemans sem kærði, setti hann fram ósk um slíkt. Þá mæltist Umboðsmaður til þess að þau sjónarmið sem kæmu fram í álitinu yrðu framvegis höfð í huga við úrlausn sambærilegra mála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.