Enski boltinn

Glen Johnson þakklátur Capello

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Varnarmaðurinn Glen Johnson er þakklátur landsliðsþjálfaranum Fabio Capello fyrir traustið en hann vill þó ekkert ræða um hvort að Micah Richards eigi frekar skilið að spila í landsliðinu.

Sparkspekingar í Englandi hafa rætt þó nokkuð um hvort Richards, sem hefur staðið sig vel með Manchester City að undanförnu, sé betri kostur í stöðu hægri bakvarðar hjá enska landsliðinu en Johnson. Richards var ekki valinn í landsliðið nú síðast.

Johnson var í byrjunarliði Englands gegn Spáni um helgina. „Það er ekki undir mér komið að ákveða hvort að Micah Richards eigi að vera í hópnum eða ekki,“ sagði Johnson við enska fjölmiðla.

„Þannig er þetta með allar stöður á vellinum. Menn hafa mismunandi skoðanir á því hvaða leikmenn eigi skilið að spila með landsliðinu. Þannig er bara þessi bransi og við verðum að lifa með því. Ég ætla bara að einbeita mér að sjálfum mér.“

„Þjálfarinn hefur sýnt mér traust og ég er þakklátur fyrir það. Ég hef lent í ýmislegu vegna meiðsla og það hefur alls ekki verið auðvelt fyrir mig. En vonandi er því lokið og ég get horft fram á veginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×