Enski boltinn

Villas-Boas segir Chelsea enn vera á réttri leið

Það er óhætt að segja að síðasta vika hafi verið skelfileg fyrir Chelsea. Fyrst tapaði liðið fyrir QPR á útivelli og síðan fékk liðið á sig fimm mörk á heimavelli og tapaði fyrir Arsenal.

Gagnrýnendur hafa stokkið til og efast um fótboltafræðin hjá hinum unga stjóra Chelsea, Andre Villas-Boas.

Stjórinn er þó ekki af baki dottinn og segir að liðið sé á réttri leið þrátt fyrir síðustu áföll.

"Lið þurfa að læra á því að vinna og tapa. Auðvitað var þetta blaut tuska í andlitið en öll okkar vinna er ekki ónýt út af þessum tveimur leikjum. Það er langur vegur frá því," sagði Villas-Boas.

"Okkur hefur verið refsað grimmilega í síðustu leikjum en nú er það undir okkur komið að svara þessu og koma til baka sterkari en áður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×