Enski boltinn

Bara 8 af 660 starfmönnum Man. United vissu um stúkuskírnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson fyrir framan stúkuna sína.
Sir Alex Ferguson fyrir framan stúkuna sína. Mynd/AFP
Sir Alex Ferguson, var heiðraður um helgina þegar hann hélt upp á 25 ára afmæli sitt sem stjóri Manchester United. Félagið ákvað að endurskíra Norðurstúku Old Trafford „Sir Alex Ferguson Stand" í tilefni dagsins og skoski stjórinn hafði ekki hugmynd um hvað var í gangi.

Í raun vissu aðeins 8 af 660 starfsmönnum Manchester United hvað stæði til og nýja stúkunafnið var falið undir borða sem leit alveg eins út og skiltið sem var áður á Norðurstúkunni. Mike Phelan, aðstoðarstjóri Ferguson, sá skiltið reyndar blakta í vindinum en sagði Sir Alex ekki frá því. „Jæja, hann er þá rekinn," sagði Ferguson seinna í léttum tón.

Stjórnarformaðurinn David Gill átti hugmyndina og fyrsti fundurinn um málið fór fram á miðvikudaginn var eða rétt fyrir Meistaradeildarleik United-liðsins á móti Otelul Galati. Gill lagði mikla áherslu á það að enginn á fundinum, átta manns, mættu leka út leyndarmálinu því þetta ætti að koma stjóranum algjörlega á óvart.

Unnið var við nýja skiltið í skjóli nætur. Fyrst var „Old Trafford, Manchester" skiltið tekið niður og svo voru nýju stafirnir settir upp. Sex manna lið vann að uppsetningunni og þeir þurftu allir að skrifa undir plagg þar sem þeir lofuðu að segja ekki kóngi né presti frá því sem þeir höfðu gert.

„Ég vissi ekkert um þetta en ég verð að þakka félaginu fyrir þennan heiður því ég er mjög stoltur af þessu," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×