Enski boltinn

Vorm: Liverpool treystir um of á Suarez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Vorm, markvörður Swansea.
Michael Vorm, markvörður Swansea. Nordic Photos / Getty Images
Michael Vorm, markvöðurinn öflugi hjá nýliðum Swansea í ensku úrvalsdeildinni, segir að Liverpool stóli of mikið á sóknarmanninn Luis Suarez. Vorm hélt hreinu í leik liðanna á Anfield um helgina.

„Við spiluðum vel og leikmenn Liverpool áttu stundum erfitt með að halda í við okkur,“ sagði Vorm. „Kannski treysta þeir of mikið á Suarez. Hann er leikmaður sem býr yfir ótrúlega miklum hæfileikum og er í heimsklassa.“

„Ég spilaði oft gegn honum í Hollandi og hann skoraði nokkrum sinnum gegn mér. Það var því gaman að sjá hann aftur,“ bætti Vorm við en hann lék áður með Utrecht í hollensku úrvalsdeildinni.

„Hann er leikmaður sem getur breytt leikjum upp á sitt einsdæmi en hann gerði það ekki í þessum leik. Þess vegna getur verið að þeir setji of mikið traust á þennan eina leikmann. Okkur tókst að halda honum niðri og þá átti Liverpool ekkert svar.“

„Við undirbjuggum okkur vel og lögðum mikið á okkur allar 90 mínúturnar. Það er eitthvað sem maður verður að gera fyrir leiki á Anfield.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×