Enski boltinn

Newcastle upp fyrir Chelsea og í 3. sætið - Demba Ba með þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Demba Ba og Steven Taylor
Demba Ba og Steven Taylor Mynd/Nordic Photos/Getty
Newcastle hélt áfram ótrúlegu gengi sínu í ensku úrvalsdeildinni með 3-1 sigri á Stoke á útivelli í lokaleik tíundu umferðar í kvöld. Newcastle hefur enn ekki tapað leik í deildinni (6 sigrar, 4 jafntefli) og komst upp fyrir Chelsea og í 3. sætið með þessum sigri sem var sá fjórði í síðustu fimm leikjum liðsins.

Senegalinn Demba Ba skoraði öll mörk Newcastle á Britannia í kvöld og hefur því skorað átta af ellefu mörkum liðsins í þessum fimm síðustu leikjum. Bæði Ba og hinn framherjinn Leon Best, hafa blómstrað undir stjórn Alan Pardew á þessu tímabili. Newcastle saknar því ekki mikið Andy Carroll.

Tony Pulis, stjóri Stoke, þurfti að horfa upp á varnarmennina Ryan Shawcross og Marc Wilson fara meidda af velli í fyrri hálfleiknum og Stoke hefur nú aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum.

Demba Ba skoraði fyrsta markið sitt á 12. mínútu með skalla úr markteignum eftir flotta fyrirgjöf frá Gabriel Obertan en annað markið hans kom á 40. mínútu eftir að Ba stýrði misheppnuðu skoti Leon Best í markið.

Demba Ba var svo sannarlega í sviðsljósinu í kvöld því hann fékk dæmt á sig víti fyrir að hrinda Peter Crouch í teignum á 75. mínútu. Jonathan Walters skoraði af öryggi úr vítinu og minnkaði muninn í 2-1.

Stoke átti því smá von en hún lifði ekki lengi. Leon Best fékk víti sex mínútum síðar þegar Robert Huth hrinti honum í teignum. Demba Ba steig fram og innsiglaði þrennu sína og 3-1 sigur Newcastle.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×