Enski boltinn

Úlfarnir tryggðu sér stig með tveimur mörkum í blálokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie O'Hara tryggði Úlfunum stig,
Jamie O'Hara tryggði Úlfunum stig, Mynd/Nordic Photos/Getty
Wolves náði í langþráð stig með því að skora tvö mörk á síðustu sex mínútunum í 2-2 jafntefli á móti nýliðum Swansea City á Molineux í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar. Swansea komst í 2-0 í fyrri hálfleik og langt fram eftir leik stefndi í fyrsta útisigur liðsins á tímabilinu.

Wolves náði í sjö stig í fyrstu þremur umferðunum en var fyrir þennan leik búið að tapa fimm deildarleikjum í röð. Þetta voru fyrstu stig Swansea City á útivelli á tímabilinu þótt að Walesverjarnir munu gráta örugglega tvö töpuð stig enda 2-0 yfir á 83. mínútu.

Danny Graham kom Swansea í 1-0 á 23.mínútu eftir að varnarmenn Wolves misstu svifbolta Mark Gower inn fyrir sig. Graham tók hann niður og skoraði af yfirvegun.

Graham lagði síðan upp annað markið fyrir Joe Allen á 35. mínútu og staða Úlfanna var orðin slæm strax í fyrri hálfleik.

Stuðningsmenn Úlfanna voru farnir að yfirgefa völlinn þegar allt fór á flug á lokakaflanum og margir þeirra voru allt annað en ánægðir með skiptingar Mick McCarthy. Þær báru samt árangur.

Kevin Doyle minnkaði muninn á 84. mínútu þegar hann fylgdi eftir skoti Sam Vokes en Vokes var þá nýominn inn á sem varamaður.

Jamie O'Hara jafnaði síðan leikinn aðeins tveimur mínútum síðar eftir sendingu frá Kevin Doyle. Það urðu síðan lokatölur leiksins.

Hér fyrir neðan má sjá allar helstu upplýsingar um framvindu leiksins sem og leikmannahópa liðanna.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×