Enski boltinn

Norwich náði í jafntefli á Anfield

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Grant Holt jafnar hér leikinn.
Grant Holt jafnar hér leikinn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool náði aðeins jafntefli á móti nýliðum Norwich á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Craig Bellamy kom Liverpool í 1-0 í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Grant Holt jafnaði fyrir Norwich eftir klukkutímaleik. Þessi úrslit eru gríðarlega vonbrigði fyrir Liverpool-liðið en Norwich-menn gátu verið ánægðir með að fara með stig heim.

Þetta stig nægði Norwich til að komast upp í 7. sæti deildarinnar en Liverpool er áfram í 5. sætinu nú fjórum stigum á eftir Newcastle sem situr í síðasta Meistaradeildarsætinu.

Luis Suarez var hvað eftir annað nálægt því að skora í leiknum en það gekk hreinlega ekkert upp hjá Úrúgvæmanninum upp við markið í þessum leik.

Andy Carroll fékk algjört dauðafæri í uppbótartíma en skallaði framhjá markinu og skömmu siðar átti Suarez skot sem John Ruddy varði frábærlega.

Craig Bellamy fékk tækifæri í byrjunarliði Liverpool og kom liðinu í 1-0 með nánast síðustu spyrnu fyrri hálfleiksins eftir að boltinn hafði fallið fyrir fætur hans í teignum.

Grant Holt jafnaði leikinn á 60. mínútu með skalla eftir að Pepe Reina hafði missti af fyrirgjöf frá Anthony Pilkington. Holt hafði komið inn á sem varamaður aðeins þremur mínútum áður. Liverpool var búið að skjóta þrisvar sinnum í tréverkið þegar Norwich náði þessu óvænta jöfnunarmarki.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×