Enski boltinn

Mancini: City þarf að læra það af United að vinna þegar liðið á lélegan leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini og Sergio Aguero.
Roberto Mancini og Sergio Aguero. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, segir að liðið sitt verði að læra þá list sem Manchester United hefur fullkomað, að vinna leiki þegar liðið spilar illa. Manchester United tekur á móti Manchester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

„United hefur eitt sem við höfum ekki. Þeir vinna oft leiki þegar þeir eru að spila illa. Þann hæfileika vantar í mitt lið," sagði Roberto Mancini og benti sérstaklega á leiki United á móti Norwich City og Chelsea á þessu tímabili.

„Þeir eru það sterkir að þeir þurfa ekki einu sinni að spila vel til þess að vinna. Munurinn liggur í andlega þættinum því þeir eru vanir því að vinna og trúa því alltaf að þeir geti unnið hvaða leik sem er þótt þeir séu ekki að ná sér á strik," sagði Mancini.

Manchester City hefur tapað fimm af síðustu átta leikjum sínum á móti Manchester United á marki á lokamínútunum þar af hafa fjögur sigurmarkanna komið á 90. mínútu. Wayne Rooney tryggði United 3-2 sigur á Old Trafford í fyrra með frábæru marki með hjólhestaspyrnu.

„Við spiluðum vel í fyrra og þeir spiluðu líka vel. Leikurinn var opinn allt til enda og Rooney skoraði ótrúlegt mark," sagði Mancini.

Leikur Manchester United og Manchester City hefst klukkan 12.30 í dag og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og Sport 2 HD.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×