Enski boltinn

Man. City fór illa með nágranna sína á Old Trafford - með fimm stiga forskot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Manchester City er komið með fimm stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir 6-1 stórsigur á nágrönnum sínum í Manchester United. Chelsea getur náð öðru sætinu af United og minnkað forskot City í þrjú stig seinna í dag.

Mario Balotelli var maður dagsins í Manchester-slagnum á Old Trafford í dag en ítalski vandræðagemlingurinn skoraði tvö fyrstu mörkin og fiskaði að auki Jonny Evans útaf með rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks. Varamaður hans Edin Dzeko skoraði síðan tvö mörk í lok leiksins.

Manchester United var búið ekki búið að tapa heimaleik í 37 leikjum í öllum keppnum þar af var liðið búið að vinna 19 heimaleiki í röð í ensku úrvalsdeildinni. Manchester City var líka aðeins að vinna sinn annan leik á Old Trafford frá árinu 1974.

Mario Balotelli kom Manchester City í 1-0 á 22. mínútu eftir laglegan sprett David Silva og sendingu James Milner út í teiginn. Þannig var staðan í hálfleik.

Jonny Evans, sem spilaði leikinn frekar en Phil Jones og Nemanja Vidic, fékk síðan rautt spjald á 49. mínútu fyrir að toga niður Balotelli sem var að sleppa í gegn.

UNited átti smá sprett eftir að þeir misstu Evans útaf en Balotelli kom City síðan í 2-0 með skoti af stuttu færi á 60. mínútu eftir annað upphlaup hjá David Silva og sendingu frá Milner.

Sergio Agüero skoraði þriðja markið níu mínútum síðar eftir frábæra sókn þar sem Balotelli og Milner spiluðu Micah Richards í gegn og bakvörðurinn sendi boltann fyrir á Agüero.

Darren Fletcher minnkaði muninn á 80. mínútu með fallegu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Javier Hernández en City átti lokaorðið og skoraði þrjú mörk í lokin.

Fyrst skoraði varamaðurinn Edin Dzeko á 89. mínútu af marklínunni eftir sendingu frá Joleon Lescott, á fyrstu mínútu uppbótartímans skoraði David Silva fimmta markið eftir stungusendingu frá Edin Dzeko og Dzeko skoraði síðan sjötta markið sjálfur en hann gat auðveldað skorað þrennu í lokin.

Staðan í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×