Enski boltinn

Dalglish: Látið Luis Suarez í friði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez vildi fá víti en fékk ekki.
Luis Suarez vildi fá víti en fékk ekki. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, kom enn á ný til varnar Luis Suarez sem var í sviðsljósinu í 1-1 jafntefli á móti Norwich í ensku úrvalsdeildinni. Í síðustu viku var Suarez ásakaður um kynþóttafordóma en að þessu sinni um leikaraskap.

Suarez fékk fjölda færa sem hann nýtti ekki en það var meira talað um það þegar hann lét sig falla í teignum. Dómari leiksins lét Úrúgvæmanninn samt ekki plata sig og dæmdi ekki neitt.

„Ég ætla að segja dálítið og ég mun ekki bæta neinu við það. Fólk efast um heiðarleika Luis Suraez en í raun ættum við að vera að efast um heiðarleika þeirra í staðinn," sagði Kenny Dalglish harðorður.

„Á fótboltavellinum er hann til fyrirmyndar. Hann er frábær fótboltamaður og við höfum hundrað prósent trú á Luis Suarez og hvernig hann kemur fram," sagði Dalglish.

„Látið Luis Suarez bara í friði," sagði Dalglish. „Hann þarf meiri vörn inn á vellinum því eins og er þá hann ekki að fá hana frá dómurnum. Menn eru að efast um heiðarleika hans og það bitnar mikið á honum," sagði Dalglish en Suarez fékk ófá færin í gær og átti meðal 11 skot að marki.

„Hann skapaði sér fjölda færa í þessum leik, lét þá hafa fyrir sér í 90 mínútur en tókst bara því miður ekki að koma boltanum í netið," sagði Dalglish.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×