Enski boltinn

Villas-Boas: Chelsea-starfið erfiðara í dag en þegar Mourinho var hér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea.
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, telur að baráttan um enska meistaratitilinn hafi ekki verið jafnari í mörg ár. Hann er jafnframt á því að Chelsea-starfið sé erfiðara í dag en þegar Jose Mourinho sat í stjórastólnum fyrir nokkrum árum.

„Ég hef ekki séð ensku úrvalsdeildina eins jafna og hún er núna og með svona mikið af góðum liðum," sagði Andre Villas-Boas. Mourinho gerði Chelsea að meisturum 2005 og 2006 og liðið vann titilinn undir stjórn Carlo Ancelotti vorið 2010.

„Það er miklu meiri samkeppni í dag þó að ég vilji alls ekki gera neitt lítið úr titlunum sem hafa unnist hér áður. Þegar Chelsea vann seinni titilinn sinn þá var liðið búið að vinna níu leiki í fyrstu níu leikjum sínum. Miklu fleiri lið í dag líta út fyrir að ætla að berjast um titilinn," sagði Villas-Boas.

Chelsea hefur verið í miklu stuði að undanförnu,hefur unnið þrjá síðustu deildarleiki sína með markatölunni 12-3 og vann 5-0 sigur á Genk í Meistaradeildinni í vikunni. Chelsea heimsækir QPR á Loftus Road í dag en áður mætast toppliðin Manchester United og Manchester City á Old Trafford.

„Við græðum á öllum úrslitum á Old Trafford og þurfum bara að einbeita okkur að því að ná í þrjú stig út úr okkar leik. Ég þarf nauðsynlega á þessum þremur stigum að halda í dag," sagði Villas-Boas.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×