Enski boltinn

Ferguson: Versti leikur liðsins undir minni stjórn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson á leiknum í gær.
Alex Ferguson á leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, sagði að 6-1 tap liðsins gegn Manchester City í gær hafi verið versta tap hans á löngum ferli, bæði sem þjálfari og leikmaður.

„Við höfum ekki átt verri dag og þetta eru verstu úrslit mín frá upphafi. Ég held að ég hafi meira að segja aldrei tapað 6-1 sem leikmaður. Ég bara trúi því ekki hvernig leikurinn fór. Ég er algerlega eyðilagður og trúi þessu einfaldlega ekki,“ sagði Ferguson sem hefur verið knattspyrnustjóri United í 25 ár og unnið allt sem hægt er að vinna hjá félaginu.

„Menn skömmuðust sín mikið í búningsklefanum eftir leikinn - eðlilega. Við héldum bara áfram að sækja, sama hvað. Þeir náðu sækja á þremur mönnum gegn tveimur varnarmönnum okkar aftur og aftur, sama þó svo að staðan væri orðin 4-1. Ég hélt að reyndir menn eins og Rio Ferdinand og Patrice Evra myndu bregðast við en við héldum bara áfram að sækja.“

Ferguson sagði að rauða spjaldið sem Jonny Evans fékk í gær hafi gert út af við sína menn. „En í stöðunni 4-1 hefðum við átt að segja þetta gott, viðurkenna ósigur og verjast almennilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×