Enski boltinn

Terry neitar ásökunum um kynþáttaníð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Terry, fyrirliði Chelsea, hefur staðfastlega neitað því að hann hafi beitt Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði í leik liðanna í gær.

Upptaka af meintu atviki gekk á milli manna á internetinu eftir leikinn í gær. Á myndbandinu virðist Terry nota munnsöfnuð sem má flokka sem kynþáttaníð en hann gaf út yfirlýsingu í gær þar sem hann segir það rangt.

Terry virtist ekki hafa neitað því að hafa sagt það sem hann virðist segja á myndskeiðinu en að það hafi verið tekið úr samhengi. Hann sagðist vera að svara Ferdinand sem hafi sakað hann um að beita sig kynþáttaníði. Terry hafi einfaldlega ekki sagt það að fyrra bragði, eins og Ferdinand virtist meina.

„Ég myndi aldrei segja svona lagað við annan leikmann og mér finnst leiðinlegt að fólk trúir svona löguðu upp á mig," stóð í yfirlýsingu Terry. „Mér finnst dapurlegt að fólk hafi hrapað að ályktunum."

Óvíst er hvort að einhverjir eftirmálar verða af þessu máli en fyrir skömmu sakaði Patrice Evra, leikmaður Manchester United, Luis Suarez hjá Liverpool um að hafa beitt sig kynþáttaníði í leik liðanna fyrr í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×