Enski boltinn

Chicharito búinn að framlengja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Stuðninigsmenn Manchester United fengu góðar fréttir í dag en félagið hefur tilkynnt að Javier Hernandez, Chicharito, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til 2016.

Talið er að Hernandez hafi þrefaldast í launum við undirskriftina en hann gekk til liðs við Unted í júlí í fyrra frá Chivas í Mexíkó.

Óhætt er að segja að Hernandez hafi látið mikið til sín taka á sínu fyrsta tímabili og hefur hann einnig verið öflugur í haust, þegar hann hefur haft heilsu til að spila.

„Síðasti leikmaðurinn sem var svo fljótur að láta til sín taka hjá Manchester United var Ole Gunnar Solskjær,“ sagði Alex Ferguson, stjóri United, í dag. „Javier minnir mig á Ole.“

„Það hefur verið sannkallaður draumur fyrir mig að fá að spila með Manchester United,“ sagði Hernandez sjálfur. „Ég átti aldrei von á því að mér myndi ganga svona vel á mínu fyrsta ári og er ég ánægður með vera áfram á Old Trafford.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×