Enski boltinn

Villas-Boas mögulega refsað fyrir ummæli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, var afar ósáttur við dómgæsluna í leik sinna manna gegn QPR um helgina og telja enskir fjölmiðlar líklegt að þau verði tekin fyrir af aganefnd enska knattspyrnusambandsins.

QPR vann leikinn, 1-0, með marki Heiðars Helgusonar úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. David Luiz var dæmdur brotlegur fyrir að keyra inn í Heiðar en Villas-Boas var afar ósáttur við dóminn, sem og frammistöðu dómarans, Chris Foy, í heild sinni.

Foy gaf til að mynda tveimur leikmönnum Chelsea beint rautt spjald í fyrri hálfleik, Jose Bosingwa og Didier Drogba.

Villas-Boas húðskammaði Foy eftir leikinn og sagðist svo vera alveg sama hvort að dómarinn myndi tilkynna það í leikskýrslu sinni.

„Ég er ekki ánægður með það misræmi sem var í dómgæslunni,“ sagði Villas-Boas eftir leikinn. „Ég tel að það sama fékk ekki að gilda fyrir bæði lið.“

„Svona hefur þetta verið í undanförnum leikjum. Þetta er í þriðja skiptið á tímabilinu sem að dómgæslan hefur áhrif á leik Chelsea. Vissulega getur manneskjan gert sín mistök en þetta er orðið að munstri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×