Enski boltinn

Aron Einar stefnir á úrvalsdeildina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar, til vinstri, í leik með Cardiff.
Aron Einar, til vinstri, í leik með Cardiff. Nordic Photos / Getty Images
Aron Einar Gunnarsson hefur vakið athygli fyrir frammistöðu sína með enska B-deildarliðinu Cardiff en hann skoraði tvö mörk í 5-3 sigri liðsins á Barnsley um helgina. Hann hefur samtals skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum liðsins.

Aron Einar er í viðtali í Daily Mail í dag þar sem hann segist vilja fylgja í fótspor þeirra Eiðs Smára Guðjohnsen og Grétars Rafns Steinssonar, sem báðir hafa spilað í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er mikil virðing borin fyrir manni heima á Íslanid ef maður spilar í ensku úrvalsdeildinni. Íslendingar eru aðeins 300 þúsund talsins og ef maður spilar í stærstu deild heims þá þekkja mann allir,“ sagði Aron Einar.

„Þar hafa leikmenn eins og Eiður Smári Guðjohnsen og Grétar Rafn Steinsson spilað og er það takmark mitt.“

Aron Einar gekk í raðir Cardiff frá Coventry í sumar og hefur staðið sig vel í upphafi tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×