Enski boltinn

Kolo Toure spenntur fyrir PSG

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Kolo Toure, leikmaður Manchester City, myndi skoða það með opnum huga að ganga til liðs við Paris Saint-Germain ef tilboð bærist frá félaginu.

Toure sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í síðasta mánuði eftir að hafa tekið út sex mánaða keppnisbann sem hann fékk fyrir að falla á lyfjaprófi - eftir að hafa tekið inn megrunarlyf eiginkonu sinnar.

Toure er þrítugur varnarmaður sem hefur lítið fengið að spila með City síðan hann kom til baka.

„Ég hefði áhuga á því vegna þess að það er mjög hörð samkeppni hjá City,“ var haft eftir Toure í frönskum fjölmiðlum í gær.

„PSG er ekki eins og það var áður fyrr. Það eru mjög góðir leikmenn hjá félaginu í dag og það er ljóst að félagið er mjög spennandi kostur.“

„Ég veit líka að ég er ekki sá eini sem hefur áhuga á að spila með félaginu. Ekki bara launanna vegna, heldur einnig vegna þess að eigendur félagsins ætla sér að stóra hluti í framtíðinni,“ bætti Toure við.

Eigendur PSG eru moldríkir olíufurstar frá Katar sem hafa verið duglegir að styrkja liðið með öflugum leikmönnum að undanförnu. Nú síðast var David Beckham sterklega orðaður við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×