Enski boltinn

Terry ætlar að hreinsa nafnið sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry í leiknum um helgina.
John Terry í leiknum um helgina. Nordic Photos / Getty Images
John Terry, fyrirliði Chelsea, er harðákveðinn í að hreinsa nafnið sitt og ítrekar að hann hafi ekki beitt Anton Ferdinand, leikmann QPR, kynþáttaníði í leik liðanna um helgina.

Málið er nú rannsakað af lögreglunni í Bretlandi eftir að kvörtun barst frá óbreyttum borgara, eins og það var orðað í tilkynningu frá Scotland Yard í morgun.

Myndbandsupptaka af meintu atviki hefur farið um netheima. Þar virðist Terry kalla Ferdinand illum nöfnum en sá fyrrnefndi segir að það hafi verið tekið úr samhengi. Hann hafi verið að svara ásökunum Ferdinand og að málið sé allt byggt á misskilningi.

„Ég ætla að gera hvað sem ég þarf að gera til að hreinsa nafnið mitt,“ sagði Terry við Daily Mail. „Ég ætla ekki að sætta mig við þessa meðferð.“

„Ég og Anton ræddumst við í tíu mínútur í búningsklefanum eftir leikinn og það er ekkert illt á milli okkar. Þessu máli er lokið á milli okkar.“

Það var mikill hiti í leikmönnum í leiknum en tveir leikmenn Chelsea fengu að líta beint rautt spjald í fyrri hálfleik. QPR vann leikinn, 1-0, með marki Heiðars Helgusonar úr vítaspyrnu.

Þetta er í fyrsta sinn í sextán ár sem að QPR vinnur Chelsea en liðin eru nágrannar og erkifjendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×