Enski boltinn

Wenger enn sár út af tapinu í deildabikarnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene wenger, stjóri Arsenal, segir að honum finnist enn sárt að hugsa um tap sinna manna gegn Birmingham í úrslitum ensku deildabikarkeppninnar á síðasta tímabili.

Obafemi Martins tryggði Birmingham sigur í leiknum eftir misskilning á milli Wojciech Szczesny, markvarðar Arsenal, og varnarmannsins Laurent Koscielny.

Fyrir leikinn átti Arsenal enn möguleika á að vinna alla fjórar keppnirnar sem liðið tók þátt í en liðinu gekk skelfilega í lok leiktíðarinnar og vann  aðeins þrjá af fimmtán síðustu leikjum sínum.

Að lokum missti Arsenal af öllum bikurum og endaði í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Maður gleymir aldrei vonbriðgunum,“ sagði Wenger um tapið en Arsenal mætir Bolton í deildabikarnum í kvöld. „En það er hluti af lífi stjórans. Það gengur bæði vel og illa.“

„Við stóðum okkur mjög vel í þessari keppni í fyrra og spiluðum marga góða leiki. Fólk vill gleyma því. Það ríkir mikið hungur í liðinu og efast ég ekki um það. Strákarnir vilja ná langt, sama hvað keppnin heitir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×