Enski boltinn

Chelsea kært af enska knattspyrnusambandinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ráðstefna - Chelsea er kært fyrir þetta atvik í leiknum gegn QPR um helgina.
Ráðstefna - Chelsea er kært fyrir þetta atvik í leiknum gegn QPR um helgina. Nordic Photos / Getty Images
Chelsea hefur verið kært af enska knattspyrnusambandinu fyrir að hafa ekki stjórn á leikmönnum sínum í leik liðsins gegn QPR í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Félagið þarf að svara fyrir það af hverju leikmenn hópuðust í kringum Chris Foy, dómara leiksins, eftir að hann rak Jose Bosingwa af velli.

Foy rak einnig Didier Drogba af velli fyrir hættulega tæklingu og dæmdi þar að auki vítaspyrnu sem tryggði QPR 1-0 sigur í leiknum. Heiðar Helguson fiskaði vítið og skoraði úr því.

Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, var harðorður gagnvart Foy í fjölmiðlum eftir leikinn og hefur enska sambandið beðið hann um að útskýra ummæli sín nánar.

Chelsea hefur frest til föstudags til að skila inn greinagerð um bæði mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×