Enski boltinn

Meiðsli Hargreaves ekki alvarleg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Owen Hargreaves í leik með Manchester City.
Owen Hargreaves í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Sögusagnir um að Owen Hargreaves sé enn og aftur alvarlega meiddur eru ekki réttar, eftir því sem forráðamenn Manchester City segja.

Hargreaves gekk óvænt í raðir City nú í sumar eftir að hafa verið á mála hjá United undanfarin ár. Hann hefur þó lítið sem ekkert að spila síðustu árin vegna meiðsla og margir sem töldu að ferli hans væri lokið.

Hann hefur komið við sögu í nokkrum leikjum með City en spilar þó ekki með liðinu gegn Wolves í enska deildabikarnum í kvöld vegna meiðsla. Hann er meiddur á kálfa.

„Það er ekkert til að hafa áhyggjur af,“ sagði David Platt, þjálfari aðalliðs City. „Hann fékk bara smá högg á kálfann. Við erum búnir að skoða meiðslin vel og eru þau ekki alvarleg.“

„Þetta er því ekki um bakslag að ræða. Ef hann hefði þurft að hvíla í 3-4 vikur hefði þetta verið bakslag en svo alvarlegt er þetta ekki.“

Platt segir að Hargreaves hafi aðeins misst af fimm dögum á þeim sjö vikum sem hann hefur verið hjá félaginu. Talið var líklegt að hann yrði á bekknum í grannaslag City og United um helgina en ekkert varð af því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×