Enski boltinn

Balotelli er að þroskast

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Platt, þjálfari hjá Manchester City, segir að þrátt fyrir allt sé Mario Balotelli að þroskast, bæði sem manneskja og leikmaður.

Balotelli hefur verið mikið í fréttunum síðan hann kom til City, bæði fyrir atvik utan vallar sem og innan hans. Um helgina var hann næstum búinn að kveikja í húsinu sínu er hann og vinir hans voru að leika sér með flugelda innandyra.

Hann skoraði svo tvívegis í 6-1 sigri City á erkifjendunum í Manchester United og átti stórleik eins og svo margir aðrir í liði City.

„Mér finnst ekki að það sé erfitt að hafa stjórn á leikmanni eins og Mario,“ sagði Platt. „Hann fer til dæmis aldrei í fýlu.“

„Hann er hæfileikaríkur og fólk sá það af og til á síðasta tímabili. Hegðun hans hefur alltaf verið góð en honum hefur gengið misvel að einbeita sér. En hann hefur sýnt meiri stöðugleika í þeim efnum að undanförnu og hefur átt góða 2-3 mánuði.“

„Hann missir einbeitinguna inn á milli en maður er fljótur að koma honum aftur til. Hann er aldrei niðurlútur í heila viku og þarf ekki meira en tíu sekúndur til að koma sér aftur í gang. Hann er mikil ráðgáta en er að þroskast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×