Enski boltinn

John Terry ekki í hópnum hjá Chelsea í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Terry, fyrirliði Chelsea.
John Terry, fyrirliði Chelsea. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Terry, fyrirliði Chelsea, er ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld þegar liðið mætir Everton í enska deildarbikarnum. Það hefur verið mikið umstang í kringum John Terry frá leiknum á móti Queens Park Rangers um helgina en það er þó ekki ástæðan fyrir því að Terry verður ekki með í kvöld.

Andre Villas-Boas, stjóri Chelsea, sagði ástæðuna vera að hann vildi koma í veg fyrir það að Terry fengi spjald í kvöld og yrði í banni í stórleiknum á móti Arsenal um næstu helgi. Didier Drogba og José Bosingwa verða báðir í banni í Arsenal-leiknum vegna rauðu spjaldanna sem þeir fengu á Loftus Road.

Terry er ásakaður um að hafa notað niðrandi orð um Anton Ferdinand í leik Chelsea og QPR um helgina og beitt hann kynþáttaníði sem menn hafa sýnt fram á með myndbandsupptöku af atvikinu. Sjálfur hefur Terry ítrekað neitað sök, segir að um misskilning sé að ræða og að hann hafi útkljáð sín mál við Anton Ferdinand eftir leikinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×