Fótbolti

Yfir fimmtíu prósent leikmanna á HM undir 17 ára féllu á lyfjaprófi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Mexíkó fagna Heimsmeistaratitlinum.
Leikmenn Mexíkó fagna Heimsmeistaratitlinum. Mynd/Nordic Photos/Getty
FIFA ætlar ekki að refsa þeim leikmönnum sem féllu á lyfjaprófi á HM 17 ára landsliða sem fram fór í Mexíkó í sumar. Sambandið álítur að um heilsufarlegt vandamál í Mexíkó hafi verið að ræða en efnið clenbuterol fannst hjá meira en fimmtíu prósent leikmanna sem fóru í lyfjapróf á mótinu.

Það voru alls 208 lyfjpróf tekin á meðan mótinu stóð og í 109 þeirra fannst efnið clenbuterol eða í 52,4 prósent tilfella.

Yfirvöld í Mexíkó hafa sagt að það sé viðurkennt vandamál í landinu að búfénaður sé sprautaður með sterum til að örva vöxt en slíkir sterar eru bannaðir af WADA.

Leikmennirnir sem ekkert mældist hjá höfðu víst látið sér nægja að borða fisk og grænmeti á meðan mótinu stóð. FIFA lítur svo á að leikmennirnir sem féllu á prófinu séu því fórnarlömb fæðunnar á mótinu.

Svipaða sögu er að segja af þeim fimm leikmönnum A-landsliðs Mexíkó sem féllu á lyfjaprófi í Gull-bikarnum en þeir áttu líka að hafa fengið efnið clenbuterol í sig í gegnm sterasýkt kjöt í heimalandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×