Fótbolti

Zidane gæti hugsað sér að þjálfa landslið Frakka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Zinedine Zidane, yfirmaður íþróttamála hjá Real Madrid og fyrrum landsliðshetja Frakka, getur vel hugsað sér að gerast einn daginn landsliðsþjálfari Frakklands.

Zidane lagði skóna á hilluna árið 2006 eftir úrslitaleik heimsmeistaramótsins í knattspyrnu gegn Ítalíu. Frakkland tapaði leiknum en Zidane fékk að líta rauða spjaldið í framlengingu eins og frægt er.

„Myndi ég vilja þjálfa franska landsliðið? Af hverju ekki? Það væri ekki svo slæmt og er allt hægt í þessu lífi,“ sagði Zidane í samtali við franska fjölmiðla í gær.

Laurent Blanc er núverandi landsliðsþjálfari Frakklands sem er í efsta sæti D-riðils í undankeppni EM 2012. Liðið þarf fjögur stig úr síðustu tveimur leikjum sínum í riðlinum til að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×