Enski boltinn

Martin Jol sektaði táning fyrir að taka vítaspyrnu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vítaspyrnan umrædda. Ross Turnbull er í markinu hjá Chelsea.
Vítaspyrnan umrædda. Ross Turnbull er í markinu hjá Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Martin Jol, knattspyrnustjóri Fulham, sektaði táninginn Pajtim Kasami fyrir að taka vítaspyrnu sem hann átti ekki að taka í leik með liðinu í enska deildabikarnum.

Kasami skoraði ekki úr vítaspyrnunni þegar að Fulham tapaði fyrir Chelsea þann 21. september síðastliðinn. Jol hafði ákveðið að Orlando Sa ætti að vera vítaskytta liðsins í leiknum en ekki var farið eftir því.

Jol sektaði því hinn nítján ára gamla Kasami fyrir atvikið en samkvæmt enska götublaðinu The Sun ríkir nokkur óánægja með strangt sektarkerfi sem Jol hefur innleitt í félagið.

„Kasami hefði ekki verið sektaður hefði hann skorað úr vítinu. Sumar reglanna eru afar furðulegar svo ekki sé meira sagt,“ er haft eftir ónefndum heimildamanni úr röðum Fulham.

„Þetta er ungur strákur og hann var bara að gera sitt besta fyrir liðið. En svo var hann sektaður um 500 pund.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×