Enski boltinn

Van der Vaart dregur dómgreind Redknapp í efa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Van der Vaart í leik með Tottenham.
Rafael Van der Vaart í leik með Tottenham. Nordic Photos / Getty Images
Rafael van der Vaart gæti verið búinn að koma sér í vandræði hjá Harry Redknapp, stjóra Tottenham, fyrir ummæli sín í enskum fjölmiðlum nú í morgun.

Van der Vaart sagði þá að hann vonaðist til að hann myndi ekki spila reglulega á hægri kantinum eins og hann gerði gegn Arsenal um helgina en hann telur þar að auki að það hafi verið óviðeigandi af Redknapp að ræða opinberlega um meiðsli hans.

Van der Vaart vill eins og svo margir aðrir sóknarþenkjandi miðjumenn spila á miðjum vellinum en ekki úti á kanti.

„Þetta hefur verið nokkuð pirrandi en auðvitað vill maður spila í þeirri stöðu sem hentar manni best," sagði Van der Vaart í viðtali við The Sun í dag.

„En ef ég þarf að elta sóknarþenkjandi bakvörð upp og niður kantinn allan leikinn þá er nokkuð ljóst ég næ ekki mínu besta fram."

„Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem ég spilaði á hægri kantinum á sunnudaginn og fékk ég frelsi til að sækja meira inn á miðjuna. En það sást best á markinu sem ég skoraði að ég nýtist best á miðri miðjunni."

Van der Vaart var tekinn af velli í leiknum þegar tæpar 30 mínútur voru til leiksloka en Redknapp hefur áður sagt að hann taki oft van der Vaart af velli vegna meiðslavandræða.

„Það er mín skoðun að það voru mistök að tjá sig um meiðslin," sagði van der Vaart. „Hann tók mig af velli vegna þess að hann vildi ekki taka neina áhættu en ég tel að ég hefði getað spilað í 90 mínútur."

„Það kom mér algerlega í opna skjöldu þegar ég var tekinn af velli. Mér fannst ég standa mig gríðarlega vel. Ég skoraði og gaf þrjár stungusendingar á liðsfélaga mína sem komust einir gegn markverði Arsenal."

Hann segir þar að auki að það hafi verið rangt að hann hafi tekið boltann niður með höndinni áður en hann skoraði markið sitt í leiknum. „Nei, alls ekki. Þeir (Arsenal-menn) eru bara tapsárir. Ég tók boltann niður með bringunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×