Erlent

Breivik leiddur fyrir dómara í Osló

Breivik kemur í dómsalinn
Breivik kemur í dómsalinn mynd/afp
Norski fjöldamorðinginn Anders Behring Breivik var leiddur fyrir dómara í Ósló í morgun en þar verður farið fram á framlengingu gæsluvarðhalds hans.

Hinn 32 ára gamli Breivik kom fyrir dómara nú klukkan ellefu í morgun að íslenskum tíma, en þar mun saksóknari fara fram á átta vikna framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir honum.

Jafnframt er talið að hann krefjist þess að Breivik verði gert að sæta fjögurrra vikna einangrun, en samkvæmt norskum lögum er ekki hægt að leggja fram beiðni um lengri einangrunarvist og því hefur krafan verið lögð fram á fjögurra vikna fresti.

Um lokað réttarhald er að ræða, en það var norska lögreglan sem fór fram á að þessi háttur yrði hafður á þar sem hún óttaðist að Breivik myndi nota tækifærið til að koma skilaboðum áleiðis til mögulegra vitorðsmanna.

Dómari kveður upp úrskurð sinn klukkan hálfeitt að íslenskum tíma í dag og að því loknu verður haldinn blaðamannafundur sem sýndur verður í beinni útsendingu á vef norska ríkisútvarpsins.

Breivik er sakaður um að bera ábyrgð á sprengjuárásinni í miðborg Oslóar og fjöldamorðunum í Útey sem urðu 77 manns að bana þann 22.júlí síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×