Íslenski boltinn

Umfjöllun: Steindautt í Grindavík

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Grindavíkurvelli skrifar
Grindvíkingurinn Páll Guðmundsson í leik með liðinu fyrr í sumar.
Grindvíkingurinn Páll Guðmundsson í leik með liðinu fyrr í sumar. Mynd/Hag
Grindvíkingar og Víkingar gerðu steindautt markalaust jafntefli í leik liðanna í 16. umferð Pepsi-deild karla í Grindavík í kvöld. Það var því ekkert mark skorað í báðum innbyrðisleikjum liðanna í sumar því liðin gerðu líka markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Víkinni.

Hann bauð ekki upp á mörg færi eða mikla skemmtun leikurinn í bleytunni og rokinu í Grindavík í kvöld. Markalaust jafntefli niðurstaðan í leik Grindavíkur og Víkings í annað sinn í sumar og góð færi í lágmarki.

Grindavík sótti undan sterkum vindinum í tíðindalitlum fyrri hálfleik þó Magnús Þormar hafi einu sinni varið mjög vel í marki Víkings og Magnús Páll sett boltann í hliðarnetið á marki Grindavíkur.

Það gerðist ekki mikið fleira í seinni hálfleik fyrr en síðustu 20 mínúturnar. Magnús Björgvinsson fékk þá besta færi leiksins en missti boltann of langt frá sér þegar hann var kominn einn í gegn og Magnús Þormar sótti boltann auðveldlega.

Víkingur sýndi lífsmark í lokin með mikilli baráttu og náði aðeins að pressa á Grindavík en gæði vantaði fram á við og pressan skilaði ekki færum.

Markalaust jafntefli var því staðreynd, úrslit sem eru mun betri fyrir Grindavík en Víking því Grindavík heldur enn átta stiga forystu á Víking sem virðist ekki eiga mikla möguleika á að bjarga sér frá falli þó enn séu sex umferðir eftir. Grindavík hefði getað losað sig við falldrauginn með sigri en fjórði leikurinn í röð án taps er staðreynd og haldi liðið áfram á þeirri braut ná liðin í tveimur neðstu sætunum Grindvíkingum ekki að stigum.

Grindavík-Víkingur 0-0

Grindavíkurvöllur. Áhorfendur: 693

Dómari: Gunnar Jarl Jónsson 6

Tölfræðin:

Skot (á mark): 8-5 (5-1)

Varið: Óskar 1 – Magnús 5

Hornspyrnur: 5-5

Aukaspyrnur fengnar: 23-13

Rangstöður: 3-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×