Enski boltinn

Moeys ætlar að nota Barkley sparlega

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Barkley í baráttunni við leikmenn QPR um helgina.
Barkley í baráttunni við leikmenn QPR um helgina. Nordic Photos/Getty Images
David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, segist ætla að passa vel upp á hinn 17 ára miðjumann Ross Barkley. Englendingurinn var eini ljósi punkturinn í 1-0 tapi Everton á heimavelli gegn QPR um síðustu helgi.

Moyes er ánægður með að Barkley fái stuðningsmenn Everton til þess að brosa en segist þó ætla að nota leikmanninn sparlega.

„Stuðningsmenn Everton hafa ekki yfir miklu að gleðjast um þessar mundir. Ross gefur þeim von. En ég mun velja hann í réttu leikina og vonast til þess að fólk skilji viðhorf mitt," sagði hinn skoski stjóri Everton.

Moyes hefur náð frábærum árangri með Everton síðan hann tók við liðinu árið 2002. Enskir fjölmiðlar hafa verið fljótir að rifja upp hvernig Wayne Rooney skaust upp á stjörnuhimininn undir stjórn Moyes á sínum tíma. Rooney spilaði sína fyrstu leiki fyrir Everton 16 ára gamall en Barkley er 17 ára.

„Það er ekki aðeins aldurs hans vegna heldur einnig sú staðreynd að hann hefur ekki spilað mikinn fótbolta. Hann er nýkominn tilbaka eftir að hafa þríbrotið á sér fótinn og við verðum að hafa það í huga," sagði Moyes.

Barkley er uppalinn í Liverpool og tengist því stuðningsmönnum sterkari böndum en aðkeyptir leikmenn. Líkt og Wayne Rooney.

„Hann er rólegur utan vallar og segir ekki mikið. Hann lifnar hins vegar allur við inni á vellinum. Það er frábært að sjá leikmann með jafnmikið líf og áhuga og hann," sagði Skotinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×