Enski boltinn

Warnock ánægður með að falla út úr deildabikarnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Warnock ætlar sér þó stærri hluti í FA bikarnum.
Warnock ætlar sér þó stærri hluti í FA bikarnum. Nordic Photos/Getty Images
Neil Warnock, knattspyrnustjóri QPR, gerði lítið úr tapi sinna manna gegn Rochdale í annarri umferð enska deildabikarsins í knattspyrnu í gærkvöld. Rochdale vann 2-0 sigur á Loftus Road og er komið í 3. umferð keppninnar.

„Ég held að fólki sé sama um keppnina og það þarf að skoða hvers vegna það er," sagði Warnock að leiknum loknum. 4,775 áhorfendur mættu á Loftus Road í gærkvöld.

Warnock hafði mun meiri áhyggjur af meiðslum Bradley Orr sem lék vel í 1-0 sigrinum á Everton á Goodison Park á laugardaginn.

„Við höfum misst mikilvægan leikmann, Bradley Orr, sem spilaði mjög vel á laugardaginn. Til hvers? Það er ekki eins og við séum að fara að vinna keppnina," sagði Warnock.

Steve Eyre, knattspyrnustjóri Rochdale, var ekki sáttur við ummæli Warnock sem honum fannst gefa í skyn að QPR hefði aldrei ætlað sér sigur í leiknum.

„Neil sagði ekki fyrir leikinn að hann tæki hann ekki alvarlega. Ákvörðun hans að stilla Adel Taarabt og Jay Bothroyd upp í fremstu víglínu segir mér að hann hafi einmitt tekið leikinn mjög alvarlega," sagði Eyre.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×