Enski boltinn

Bamba ætlað að fylla í skarð Samba?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hvort Bamba fagni mörkum í búningi Blackburn með Samba á komandi tímabili verður að koma í ljós.
Hvort Bamba fagni mörkum í búningi Blackburn með Samba á komandi tímabili verður að koma í ljós. Nordic Photos/AFP
Steve Kean knattspyrnustjóri Blackburn segir félagið nálægt því að festa kaup á Sol Bamba varnarmanni Leicester. Kean leitar að miðverði til að fylla í skarð Phil Jones sem fór til Manchester United.

„Við höfum lagt fram tilboð og erum að reyna að ganga frá málinu þótt ferlið taki langan tíma. Góður fréttirnar eru þær að tilboðinu hefur ekki verið hafnað svo við færumst í rétta átt,“ segir Kean.

Bamba sem er 26 ára kemur frá Fílabeinsströndinni en fyrir er öflugur Afríkubúi í vörn Blackburn, Chris Samba frá Kongó. Samba, sem glímir við meiðsli, er orðaður við stærri félög á borð við Arsenal en Kean er þó bjartsýnn á að halda honum.

„Jafnvel þótt Chris væri heill og að spila værum við að leita að miðverði þar sem við höfum ekki enn fyllt í skarð Phil Jones. Við viljum samkeppni um stöður í liðinu. Ef Gael Givet eða Grant Hanley meiðast höfum við engan til vara því Ryan (Nelsen) er enn meiddur,“ sagði Kean.

Fróðlegt verður að sjá hvort Bamba gangi til liðs við Samba og félaga hjá Blackburn. Vandfundnari er skemmtilegri sameining á eftirnöfnum og ef Bamba og Samba sameinuðu krafta sína í vörn Blackburn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×