Enski boltinn

Stoke gerir lokatilboð í Crouch og Palacios

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Crouch og Palacios elta boltann viðureign Portsmouth og Wigan um árið.
Crouch og Palacios elta boltann viðureign Portsmouth og Wigan um árið. Nordic Photos/AFP
Stoke City hefur gert lokatilboð í framherjann Peter Crouch og miðjumanninn Wilson Palacios leikmenn Tottenham. Stoke hefur styrkt sig töluvert varnarlega í sumar með kaupunum á miðvörðunum Jonathan Woodgate og Matthew Upson.

„Við höfum lagt fram lokatilboð okkar. Boltinn er í þeirra höndum. Tilboð okkar er ekki til viðræðu,“ sagði Peter Coates stjórnarformaður Stoke í útvarpsviðtali á Englandi.

Mikill metnaður virðist vera hjá Stoke um þessar mundir. Liðinu gekk vonum framar á síðustu leiktíð, hafnaði í 13. sæti í deildinni og komst í úrslit bikarsins. Crouch og Palacios þykja nokkuð stór nöfn þegar kemur að félögum á borð við Stoke.

Crouch hefur verið á mála hjá Tottenham frá árinu 2009. Hann hefur hins vegar átt erfitt með að vinna sér fast sæti í liðinu og verið orðaður við brotthvarf í töluverðan tíma. Hann var áður á mála hjá Portsmouth, Liverpool og Southampton.

Palacios, sem er frá Hondúras, hefur spilað yfir 60 leiki fyrir Tottenham undanfarin tvö og hálft ár. Hann kom til félagsins frá Wigan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×