Enski boltinn

Gerrard flottastur að mati samkynhneigðra - United flottasta liðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stuðningsmenn Liverpool hafa loksins fengið það staðfest að Steven Gerrard sé langflottastur.
Stuðningsmenn Liverpool hafa loksins fengið það staðfest að Steven Gerrard sé langflottastur. Nordic Photos/AFP
Steven Gerrard leikmaður Liverpool er flottasti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar að mati samkynhneigðra knattspyrnuáhugamanna. Gerrard vann reyndar tvöfalt þar sem fótleggir hans voru einnig valdir þeir fallegustu.

Gerrard hafði betur í keppni við Fernando Torres og Frank Lampard hjá Chelsea og Cesc Fabregas leikmann Arsenal um titilinn heitasta stjarnan í ensku úrvalsdeildinni. Skoðanakönnunin fór fram á stefnumótasíðunni Gaydar.

Manchester United þykir kynþokkafyllsta liðið og á hæla því koma Liverpool, Arsenal, Chelsea og Tottenham.

Baunaspíran Peter Crouch hjá Tottenham er sá leikmaður sem þátttakendur hafa minnstan áhuga á að fara í ástarleik með en hann hlaut aðeins 2 prósent atkvæða. Þá var hár Wayne Rooney leikmanns Manchester United kosið það versta í deildinni.

Í könnuninni kemur fram að 70 prósent samkynhneigðra þora ekki að fara á völlinn af ótta við fordómafullum stuðningsmönnum. Þá vilja 90 prósent þátttakenda að enska knattspyrnusambandið vinni gegn fordómum gagnvart samkynhhneigð.

Enginn leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefur komið út úr skápnum. Eini leikmaðurinn í efstu deild á Englandi sem hefur komið út úr skápnum, að vitað er til, er Justin Fashanu heitinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×