Enski boltinn

Evra tæpur fyrir leikinn gegn West Brom - Chicharito ekki með

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Evra og Anderson fagna sigrinum á Man City á Wembley um síðustu helgi.
Evra og Anderson fagna sigrinum á Man City á Wembley um síðustu helgi. Nordic Photos/AFP
Patrice Evra, vinstri bakvörður Manchester United, er tæpur fyrir viðureign Englandsmeistaranna gegn West Brom á sunnudag. Evra meiddist á hné í 3-2 sigrinum á Manchester City í Samfélagsskildinum.

„Við tökum lokaákvörðun á morgun en það er tæpt," sagði Sir Alex Ferguson knattspyrnustjóri United á blaðamannafundi í dag.

Ljóst er að liðið verður án framherjans Javier Hernandez en hann fékk heilahristing á undirbúningstímabilinu í Bandaríkjunum.

„Það eru í það minnsta tíu dagar þar til hann spilar knattspyrnu," sagði Ferguson. Hann sagði meiðsli Chicharito ekki alvarleg en best að hann hvíldi sig þar sem hann fékk einnig heilahristing fyrir tveimur árum.

Englandsmeistararnir áttu frekar erfitt uppdráttar á útivöllum á síðustu leiktíð en leikurinn gegn West Brom er á Hawthornes-vellinum.

„Við vorum verstir á útivelli en bestir á heimavelli. Hvað við getum gert í því veit ég ekki. Það kom mér á óvart hversu mörgum stigum við töpuðum á útivelli," segir Ferguson.

Rétt er að taka fram að þrátt fyrir slakan árangur á útivelli samanborið við á heimavelli voru fjölmörg lið sem stóðu sig verr á útivelli í deildinni. Árangur United var raunar sá fimmti besti á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×