Íslenski boltinn

Bjarni Guðjónsson: Man ekki eftir leiknum í fyrra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Guðjónsson fyrirliði KR segist ekki muna eftir 4-0 tapinu gegn FH í bikarúrslitaleiknum í fyrra. Hann man aðeins góðu minningarnar úr boltanum og ætlar að bæta einni í safnið með sigri á Þór í dag.

„Stemmningin er mjög góð. Þetta hefur verið þægileg vika aldrei þessu vant hjá okkur KR-ingum. Létt æfing eftir leikinn og svo hefðbundinn undirbúningur fyrir leikinn," segir Bjarni.

KR-ingar voru margir hverjir í nuddi í upphafi vikunnar enda verið mikið álag á liðinu undanfarna leiki. Bjarni segir það ekkert óeðlilegt.

„Það er búinn að vera nuddari hjá okkur meira eða minna annan hvern dag í sumar," segir Bjarni. Hann segir alla leikmenn heila fyrir utan Óskar Örn Hauksson sem meiddist á rist um daginn og verður frá út tímabilið. Þá er Guðmundur Reynir Gunnarsson í banni.

KR-ingar steinlágu gegn FH 4-0 í bikarúrslitaleiknum í fyrra. Bjarni segist þó ekkert muna eftir þeim leik.

„Ég er svo heppinn að ég man ekki eftir leiknum í fyrra. Hann er ekkert að trufla mig. Ég man aftur á móti eftir leiknum sem við unnum hérna og leiknum þegar ég var hjá Akranesi 1996. Þetta er eitthvað sem situr í minningunni. Ég er svo heppinn að gleyma leiðinlegu minningunum en það er aðrar minningar sem við ætlum að eignast á laugardaginn."

Bjarni Guðjónsson hefur lýst því yfir að honum finnist leiðinlegt að spila á Laugardalsvelli. Það er þó ekki völlurinn sjálfur sem hann er ósáttur við heldur fjarlægð leikmanna frá áhorfendum.

„Völlurinn lítur mjög vel út. Það hefur oft verið málið að völlurinn sjálfur er góður. En núna stöndum við á hlaupabrautinni og það er eins og það séu hundrað metrar upp í stúku. Maður nær engri tengingu við áhorfendur sem eru í stúkunni. Það er vandamálið. Völlurinn sjálfur er oftast mjög góður."

Stuðningsmenn KR og Þórs hafa farið á kostum í sumar. Mætti ætla að mikil keppni verði þeirra á milli en Bjarni reiknar með því að sýnir menn í Miðjunni hafi betur í stúkunni.

„Þetta verður engin barátta. Það verða tvö til þrjú þúsund KR-ingar á vellinum. Flestir ef ekki allir taka þátt og syngja með Miðjunni. Það verður svaka stemmning KR-megin í stúkunni."

Bjarni er ekki tilbúinn að lofa því að bikarinn komi í Vesturbæinn en segir:

„Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að bikarinn komi í Vesturbæinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×