Enski boltinn

Liverpool náði aðeins í stig - Bolton rúllaði yfir QPR

Stefán Árni Pálsson skrifar
Luis Suárez eftir að hann misnotaði vítaspyrnuna.
Luis Suárez eftir að hann misnotaði vítaspyrnuna. Mynd./ Getty Images
Fyrsta umferð enska boltans hófst í dag með fimm leikjum og því er þriggja mánaða bið á enda. Bolton Wanderers tóku nýliðina í QPR í kennslustund og rústuðu leiknum 4-0. Liverpool náði aðeins í eitt stig gegn Sunderland á Anfield, en Liverpool brenndi af úr vítaspyrnu í byrjun leiks.

Liverpool tók á móti Sunderland á Anfield og fengu þeir rauðklæddu draumabyrjun þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu. Luis Suárez fór á punktinn og skaut hátt yfir. Fyrsta mark leiksins kom síðan nokkrum mínútum síðar og þá bætti Suárez fyrir mistök sín þegar hann skoraði af stuttu færi. Gestirnir náðu að jafna metin tíu mínútum fyrir leikslok þegar Sebastian Larsson jafnaði með fínu marki.

Úlfarnir sóttu Blackburn heim og það voru heimamenn sem byrjuðu betur með marki eftir um tuttugu mínútna leik þegar Mauro Formica skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í sínum fyrsta leik fyrir Blackburn. Það tók Úlfana aðeins tvær mínútur að jafna leikinn en þar var að verki Stephen Ward sem skallaði boltann í netið eftir fína fyrirgjöf frá Matthew Jarvis. Gestirnir fengu vítaspyrnu strax í upphafi síðari hálfleiks en Kevin Doyle misnotaði spyrnuna. Strax í næstu sókn náðu Wolves að bæta fyrir mistökin og Stephen Ward skoraði annað mark gestanna og því niðurstaðan 1-2 fyrir Úlfana.

Það var sannkallaður Íslendingaslagur í London þegar Heiðar Helguson og félagar í Queens Park Rangers fengu Bolton í heimsókn en Grétar Rafn Steinsson leikur með Bolton. Grétar Rafn var í byrjunarliði Bolton en Heiðar var á varamannabekk heimamanna. Gary Cahill kom gestunum yfir þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik og því var staðan 0-1 í hálfleik. Daniel Gabbidon varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 67. mínútu og aðeins þremur mínútum síðar kom Ivan Klasnic Bolton í 3-0. Tíu mínútum fyrir leikslok skoraði Fabrice Muamba fjórða mark gestanna og niðurlæging nýliðana staðreynd.

Wigan og Norwich mættust á DW Stadium, heimavelli Wigan. Fyrsta mark leiksins kom eftir tuttugu mínútur en þá skoraði Ben Watson úr vítaspyrnu en brotið var á Di Santo innan teigs og vítaspyrna dæmt. Rétt undir lok fyrri hálfleiks náði Norwich að jafna metin þegar Wes Hoolahan skoraði eftir slæm mistök frá Ali Al-Habsi, markverði Wigan.

Fulham og Aston Villa gerðu síðan markalaust jafntefli í heldur tíðindalitlum leik.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×