Íslenski boltinn

Umfjöllun: Sanngjarn sigur FH gegn Víkingi

Kolbeinn Tumi Daðason á Víkingsvelli skrifar
FH-ingar fagna í kvöld.
FH-ingar fagna í kvöld. Mynd/Daníel
FH-ingar sýndu frábæra takta í 3-1 sigri á Víkingum í Fossvoginum í kvöld. Annan leikinn í röð léku Víkingar manni fleiri stóran hluta leiksins en áttu fá svör við góðri spilamennsku Hafnfirðinga.

FH-ingar tóku völdin strax í upphafi og Emil Pálsson kom liðinu yfir á 18. mínútu eftir fallegt spil. Víkingar voru áhorfendur fyrstu tuttugu mínúturnar, lágu tilbaka og FH-ingarnir dönsuðu í kringum þá með boltann.

Víkingum tókst að jafna metin á 25. mínútu upp úr þurru. Þá sendi Colin Marshall frábæran bolta inn á teiginn úr aukaspyrnu og Helgi Sigurðsson skallaði boltann í netið af markteig.

Víkingar voru rétt sestir niður eftir fagnaðarlætin þegar FH-ingar spiluðu sig í gegnum vörn heimamanna. Brotið var á Atla Guðnasyni og vítaspyrna dæmd. Björn Daníel Sverrisson skoraði úr spyrnunni af öryggi.

Marki yfir áttu flestir von á því að FH-ingar myndu sigla sigrinum heim en sú sigling varð erfiðari en hún hefði þurft að vera. Á 35. mínútu var Pétur Viðarsson rekinn af velli eftir samskipti við Björgólf Takefusa.

Pétur virtist reka höfuðið í Björgólf sem henti sér í jörðina eins og knattspyrnumanna er siður. Rautt spjald og Víkingar manni fleiri annan leikinn í röð þegar gengið var til leikhlés.

Síðari hálfleikur var galopinn og skemmtilegur. Víkingar sóttu af krafti og áttu fullt af marktilraunum en náðu ekki að láta almennilega reyna á Gunnleif. FH-ingar héldu áfram flottu spili og fengu einnig fullt af færum til þess að klára leikinn.

Það gerðu þeir þó ekki fyrr en á 88. mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson skoraði af stuttu færi eftir frábært spil. FH-ingar gátu bætt við marki í löngum viðbótartíma en úrslitin 3-1.

FH-ingar á flottu skriði í deildinni en Víkingar komnir í botnsætið og útlitið svart.

Víkingur - FH 1-3

0-1 Emil Pálsson (18.)

1-1 Helgi Sigurðsson (25.)

1-2 Björn Daníel Sverrisson, víti (28.)

1-3 Matthías Vilhjálmsson (89.)

Dómari: Vilhjálmur Alvar Þórarinsson (7)

Skot (á mark): 14-17 (7-7)

Varin skot: Magnús 4– Gunnleifur 4

Horn: 3-9

Aukaspyrnur fengnar: 20-14

Rangstöður: 4-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×