Íslenski boltinn

Kristján: Við erum búnir að vinna vel í hans málum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals. Mynd/Valli
Kristján Guðmundsson, þjálfari Vals, fór nýjar leiðir í kvöld þegar hann stillti upp byrjunarliðinu sínu í 3-1 sigri á Fylki. Kristján henti nýliðanum Kolbeini Kárasyni í fremstu víglínu og var með Andra Fannar Stefánsson fremstan á miðjunni. Þetta heppnaðist frábærlega og Valsmenn unnu sinn fyrsta sigur síðan í byrjun júlí.

„Við erum búnir að gera fjögur jafntefli í fimm síðustu leikjum og það var nauðsynlegt ef að við ætluðum að vera í toppbaráttunni að ná í þrjú stig hér í kvöld, sérstaklega þar sem að við vorum á heimavelli," sagði Kristján.

„Það var viss áhætta að gera þessar breytingar, bæði með því að setja Andra Fannar inn sem lítið hefur spilað frá byrjun og svo með því að setja Kolbein inn í liðið sem var að spila sinn fyrsta leik," sagði Kristján og menn voru mjög hissa á að sjá Kolbein í liðinu.

„Þetta var vissulega áhætta en við erum búnir að vinna vel í hans málum. Hann fór á láni í 2. deildinni þar sem hann stóð sig mjög vel, bæði í deildarbikar og 2. deildinni. Við höfum verið að vinna með hann á æfingunum og við vorum búnir að ræða það við hann að hann fengi tækifærið. Við vildum bara bíða eftir því rétta," sagði Kristján.

„Það var frábært hjá honum að gera þetta og hann olli varnarmönnum Fylkis miklum erfiðleikum. Hann stóð sig mjög vel eins og aðrir leikmenn í liðinu. Nú verður Kolbeinn að vera einbeittur í sinni vinnu þessa vikuna og koma jafn einbeittur inn í næsta leik," sagði Kristján en hann tók það jafnframt fram að Kolbeinn væri ekki öruggur með sætið í næsta leik nema ef hann verði áfram duglegur á æfingum.

Kristján viðurkenndi að sigurinn hafi verið langþráður. „Við erum búnir að bíða eftir því að fá að kyrja sigursöngvanna. Við höfum ekki verið að skora alveg nógu mörg mörk til þess að vinna leikina. Jafnteflin telja samt þegar maður nær sigrinum inn á milli," sagði Kristján.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×