Íslenski boltinn

Ólafur: Þetta þriðja mark slátraði leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, þurfti enn á ný að öskra á sína menn í hálfleik eftir slakan fyrri hálfleik þegar Fylkisliðið tapaði 1-3 á móti Val á Hlíðarenda í kvöld. Fylkismenn voru komnir 0-3 undir í hálfleik og leikurinn var í raun tapaður.

„Þó svo að Valur hafi komist í 3-0 í fyrri hálfleik þá fannst mér leikurinn vera í járnum þegar þeir skora fyrstu tvö mörkin. Við vorum að fá fínar sóknir og vorum við það að skapa okkur góð færi en náðum ekki að vinna úr því. Þetta þriðja mark slátraði leiknum. Við tókum okkur aðeins taki í seinni hálfleik en það var bara of seint," sagði Ólafur.

„Við höfum verið í basli. Við erum búnir að missa tvo gæða leikmenn í burtu og verið í basli með meiðslin hjá Baldri Bett og Gylfa Einarssyni. Breiddin er ekki meira en það að það eru ungir strákar sem eru næstir inn. Það tekur lengri tíma að búa til gæða leikmenn úr þessum ungum drengjum. Það er bara tímavinna, annaðhvort hafa menn þolinmæði fyrir það eða ekki. Það vantar bara aðeins meiri gæði og reynslu hjá okkur. Það er bara svoleiðis," sagði Ólafur.

„Við erum í miðri deild eins og er og virðumst ekki vera að stíga upp úr því miðað við það sem við sýndum í kvöld. Við getum vonandi nýtt þennan tíma sem eftir er af deildinni til þess að bæta okkar leik. Það er framtíðarsýnin," sagði Ólafur.

„Auðvitað er ég drullusvekktur með að tapa. Ég sagði samt við þá í hálfleik að þeir hefðu 45 mínútur til að rétta úr kútnum. Mér fannst við gera það ágætlega. Við fórum að láta þá hafa aðeins fyrir hlutunum í seinni hálfleik og við náum að skora eitt mark. Það var allavega mun betri bragur á liðinu í seinni hálfleik," sagði Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×