Íslenski boltinn

Bjarnólfur: Hefðu gott af því að svara fyrir þennan skít

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarnólfur Lárusson, þjálfari Víkings, var afar ósáttur við sína menn í kvöld. Hann sagðist vanta alla baráttu í sína menn.

„Það vantaði alla baráttu, allan karakter og allan vilja í okkar lið í kvöld. Það er það sem við höfum náð út úr liðinu síðan við tókum við en það var svo sannarlega ekki hérna í kvöld. Það var hrikalega svekkjandi að horfa upp á það."

Bjarnólfur sagði ekkert jákvætt hægt að taka úr leik Víkings í kvöld.

„Ef þú ert ekki með neinn vilja, baráttu eða karakter þá er ekkert ljós í lífinu. Sérstaklega ef þú ert í þeirri stöðu sem við erum í."

Leikmönnum Víkings var ekki hleypt í viðtöl eftir leikinn. Bjarnólfur sagði ekki um fjölmiðlabann að ræða heldur ákvæði hann þetta hverju sinni.

„Ég hef bara stýrt þessu sjálfur, Helgi hefur til dæmis komið í viðtöl en það væri kannski rétt eftir svona leik að láta þá svara fyrir þennan skít sem þeir sýndu hérna í kvöld. Þeir hefðu gott af því. Ég hef ákveðið að taka þá ábyrgð á mig en ég skal leyfa ykkur að ná í rassgatið á þeim ef þeir sýna annan svona leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×