Enski boltinn

Redknapp: Salan á Modric gæti styrkt Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Modric fagnar marki með Tottenham á undirbúningstímabilinu.
Luka Modric fagnar marki með Tottenham á undirbúningstímabilinu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það er komið annað hljóð í Harry Redknapp, stjóra Tottenham, sem er nú tilbúinn að horfa á eftir Luka Modric til Chelsea eftir allt saman því hann segir að Tottenham gæti fengið þrjá til fjóra góða leikmenn í staðinn.

„Við elskum allir klúbbinn okkar en ef einhver bíður þér að þrefalda launin þín og að vinna Meistaradeildina þá er valið ekki auðvelt," sagði Harry Redknapp um stöðuna sem Króatinn Luka Modric er nú í.

„Það er búið að sannfæra hann. Ég vildi sjá hann hérna hjá okkur en ef hann fer þá gætum við fengið þrjá til fjóra leikmenn í staðinn," sagði Redknapp og bætti við:

„Svona eru möguleikarnir hjá okkur núna: Að fá peninginn og ná í fjóra leikmenn sem í fullri hreinskilni myndi skila okkur betra liði eða að halda Luka sem er frábær leikmaður," sagði Redknapp.

Tottenham mætir Hearts í kvöld í fyrri leik liðanna í forkeppni Evrópudeildarinnar en Luka Modric er meiddur og verður ekki með. Hann er ekki sá eini í liðinu sem glímir við meiðsli því liðið verður einnig án þeirra Tom Huddlestone, Jermaine Jenas, Sandro, Wilson Palacios, Steven Pienaar og William Gallas.

Tottenham er annars í viðræðum um að fá Emmanuel Adebayor á láni frá Manchester City og þá hefur félagið einnig spurst fyrir um þá Lassana Diarra, Giuseppe Rossi, Fernando Llorente, Scott Parker og Bryan Ruiz en ekkert hefur komið út úr því til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×