Íslenski boltinn

Leikmenn KR ákváðu sjálfir að tala ekki við 365 miðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Hag
Það voru leikmenn KR sjálfir sem tóku ákvörðunina um að tala ekki við 365 miðla eftir leikinn á móti Þór í gær, það er Stöð 2 Sport, Vísi og Fréttablaðið. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í dag.

Rúnar segist sjálfur ekki hafa neitað neinum viðtölum eftir leikinn sem KR vann 2-1 en það hafi hinsvegar verið ákvörðun leikmannahópsins að veita 365 miðlum engin viðtöl eftir leikinn.

KR-ingar eru mjög ósáttir með umfjöllun Stöð 2 Sport í síðasta þætti Pepsi-markanna þar sem tekin var fyrir dómgæsla í þeirra leikjum í sumar. Þeir fengu síðan sjö gul og eitt rautt spjald á Þórsvellinum í gær.

Grétar Sigfinnur Sigurðarson, fyrirliði KR, fór reyndar í viðtal við Stöð 2 Sport eftir leikinn en hafði gleymt sér í sigurgleðinni. Jónas Kristinsson, framkvæmdastjóri KR, kom þá til hans og minnti hann þá á ákvörðun leikmanna KR.

KR-ingar ætla ekki að viðhalda þessu fjölmiðlabanni í næstu leikjum og því má búast við viðtölum við leikmenn KR eftir leik sinn á móti Stjörnunni á mánudaginn kemur. Rúnar segir að leikmenn sínir hafi viljað koma óánægju sinni á framfæri á þennan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×