Erlent

Skelfilegt að hafa veitt fjöldamorðingja innblástur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lars von Trier þykir skelfilegt ef mynd hans hefur veitt fjöldamorðingja innblástur. Mynd/ afp.
Lars von Trier þykir skelfilegt ef mynd hans hefur veitt fjöldamorðingja innblástur. Mynd/ afp.
Hinn umdeildi danski kvikmyndaleikstjóri, Lars von Trier, undirbýr nú gerð nýrrar erótískrar kvikmyndar sem mun heita Nymphomaniac. Í myndinni verður rakin erótísk saga konu frá því að hún er ungabarn og þar til hún er fimmtug.

Von Trier hefur haft mikla þörf fyrir að hneyksla heimsbyggðina á ferli sínum sem listamaður. Á síðustu kvikmyndahátíð í Cannes lýsti hann því yfir að hann hafi haft samúð með sjónarmiðum Hitlers. Eftir það leit út fyrir að hann myndi tapa öllum fjárhagslegum bakhjörlum fyrir nýju myndina. Þeir hafa þó látið tilleiðast.

Á dögunum sagið Anders Breivik, fjöldamorðingi í Noregi, að hann hafi fengið innblástur frá einni af myndum Triers, Dogville. Von Trier brást hart við þessum ummælum, að sögn norska ríkisútvarpsins.

„Ég hef mjög slæma samvisku yfir þeirri tilhugsun að Dogville, sem er annars ein af mínum bestu kvikmyndum, skuli hafa verið innblástur fyrir hann. Það er alveg skelfilegt," segir von Trier.

Gert er ráð fyrir að tökur á myndinni Nymphomaniac hefjist næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×