Íslenski boltinn

Umfjöllun: Tryggvi með tvö í sigri ÍBV

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Fylkisvelli skrifar
Ingimundur Níels Óskarsson og félagar í Fylki taka á móti Eyjamönnum í kvöld.
Ingimundur Níels Óskarsson og félagar í Fylki taka á móti Eyjamönnum í kvöld. Myndir/Anton
ÍBV gaf ekkert eftir í toppbaráttunni í Pepsi-deild karla í kvöld með 3-1 sigri á andlausu Fylkisliði í Árbænum.

Óhætt er að segja að Tryggvi Guðmundsson hafi átt stórleik fyrir Eyjamenn í kvöld en hann skoraði tvö mörk fyrir liðið auk þess að leggja eitt mark upp. Öll mörk ÍBV komu í fyrri hálfleik.

Ásgeir Örn Arnþórsson skoraði svo mark Fylkis undir lok leiksins en sigur ÍBV var þá löngu tryggður.

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, gerði fimm breytingar á sínu liði í dag og setti til að mynda fjóra erlenda leikmenn á bekkinn eftir tapið gegn Þór í bikarkeppninni fyrir helgi.

Þær breytingar skiluðu heldur betur tilætluðum árangri því Eyjamenn réðu leiknum frá fyrstu mínútu. Þórarinn Ingi Valdimarsson var settur sem fremsti maður í sókn og það bar árangur strax á áttundu mínútu er hann kom ÍBV yfir eftir mark af stuttu færi og eftir sendingu Tryggva.

Eftir þetta var örlítið líf í Fylkismönnum sem komu sér í tvö álitleg færi. En eftir að Tryggvi kom ÍBV í 2-0 eftir 24 mínútna leik voru vonir þeirra í raun endanlega úti.

Tryggvi skoraði með skoti af vítateigslínu en boltinn hafði viðkomu og breytti um stefnu á Davíð Ásbjörnssyni og því óvíst hvort að Tryggvi fái á endanum markið skráð á sig.

Tryggvi skoraði svo aftur á 43. mínútu og þá sitt 122. mark í sumar. Honum vantar nú fjögur mörk í viðbót til að jafna markamet Inga Björns Albertssonar.

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, reyndi að koma einhverju skipulagi á leik sinna manna í síðari hálfleik sem náðu þó að halda marki sínu hreinu þá. Fylkismenn spiluðu vissulega betur í seinni hálfleik en gekk þó illa að skapa sér almennileg færi.

Árbæingar sakna mjög sinna sterku miðjumanna sem byrjuðu mótið svo vel með þeim appelsínugulu. En nú eru Gylfi Einarsson og Baldur Bett meiddir og Andrés Már Jóhannesson hefur verið seldur til Noregs. Þeir sem leystu þá af hólmi í dag náðu ekki að fylla í þeirra skörð.

Eyjamenn héldu hins vegar sínu góða skipulagi á sínum leik og sigldu góðum sigri örugglega í heimahöfn. Með slíkri spilamennsku eru þeir áfram til alls líklegir í sumar.



Fylkir – ÍBV 3-1



Dómari: Guðmundur Ársæll Guðmundsson (6)

Skot (á mark): 7–12 (4-5)

Varin skot: Fjalar 2 – Albert 3

Hornspyrnur: 4–6

Aukaspyrnur fengnar: 9–12

Rangstöður: 3–2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×